Ný þjónusta Google, Youtube Red, mun gera notendum kleift að horfa án auglýsinga á Youtube-myndbönd.

Google Play áskrifandi greiðir 9,99 dali á mánuði eða rétt rúmar 1250 krónur - 12,99 dali eða 1600 krónur fyrir iOS notendur vegna skattaálagningar - og fær fyrir vikið að horfa eins mikið og hann vill, án þess að finna fyrir einni einustu auglýsingu. Auk þess mun áskrifandinn geta vistað myndbönd á símann sinn til að horfa á seinna meir.

Youtube Red verður ekki sérstakt smáforrit heldur valmöguleiki innan Youtube-forritsins sem er nú þegar til staðar. Einnig verður notendum Red boðið að fá sérstaka Youtube-tónlistarþjónustu, þar sem forritið semur fyrir þig lagalista og þú getur hlustað með smáforritið í bakgrunninum.

Notendur Red verða svo þeir einu sem fá að horfa á sérstaklega framleitt sjónvarpsefni fyrir þessa þjónustu, og er búist við að það verði tilbúið á næsta ári. Þekktar Youtube-stjörnur á borð við Pewdiepie og The Fine Bros munu koma að gerð þessa efnis.