Samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins munu líklega sekta Google um milljarða evra, mörg hundruð milljarða króna, fyrir að misnota útbreiðslu Android-stýrikerfisins, sem Google gefur út fyrir farsíma, samkvæmt frétt Wall Street Journal . Auk þess muni Google verða gert að breyta viðskiptaháttum sínum í tengslum við Android.

Google er meðal annars sakað um að þvinga farsímaframleiðendur til að setja upp leitarvél og vafrara þess fyrirfram.

Evrópusambandið sektaði Google í fyrra um 2,4 milljarða evra – um 300 milljarða króna á gengi dagsins í dag – fyrir að misnota yfirburði leitarvélar sinnar til að beina fólki að verslunarþjónustu sinni.

Google hefur ekki viljað tjá sig um málið, en áður hefur stórfyrirtækið neitað ásökunum sambandsins. Auglýsingaþjónusta fyrirtækisins í farsímum hefur verið í örum vexti, en verði það Google skikkað til að hætta að ýta undir for-uppsetningu snjallforrita sinna á síma sem keyra Android stýrikerfið, gæti það dregið úr tekjum þess.

Málið er liður í röð aðgerða sem Evrópusambandið hefur ráðist í gegn bandarískum tæknirisum, í viðleitni sinni til að stuðla að samkeppni, eðlilegum skattgreiðslum, og persónuvernd.