Alls voru 94 nýskráningar á aðallistum hinna norrænu kauphalla Nasdaq árið 2016 meðal stórra, meðalstórra og smærri fyrirtækja. Alls var 31 fyrirtæki skráð í kauphöllum Nasdaq í Kaupmannahöfn, Helsinki, Reykjavík og Stokkhólmi og 63 fyrirtæki voru skráð á First North markaðinn.

Samkvæmt fréttatilkynningu Nasdaq Nordic svipar árið í nýskráningum til ársins 2015 þegar nýtt met var slegið í nýskráningum. Samtals nam hlutafjársöfnun fyrirtækja í norrænum kauphöllum og á Firsth North 7,8 milljörðum evra á árinu. Þess má geta að First North fagnaði 10 ára afmæli á árinu.

Kauphallir á Norðurlöndunum skera sig úr hvað nýskráningar varðar, enda hefur verið lítið um nýskráningar á heimsvísu á árinu. Þær hafa einkum reynst vel fyrir hlutafjárútboð og nýskráningar smárra og meðalstórra fyrirtækja.

„Á meðan markaðir fyrir hlutafjárútboð hafa verið hægir hefur Nasdaq Nordic viðhaldið stöðu sinni sem leiðandi miðstöð fyrir nýskráningar í Evrópu,“ segir Adam Kostyál, forstöðumaður evrópskra nýskráninga hjá Nasdaq. „Við höfum eytt undanförnum árum í að vinna með mikilvægum hagsmunaaðilum til að bæta skilyrðin fyrir hlutafjárútboð á Norðurlöndunum, og starfsemin í dag ber vott um að kerfið sem við höfum skapað saman sé að virka.“

Stærsta hlutafjárútboð ársins á Norðurlöndunum var útboð DONG Energy, en hlutafjársöfnun fyrirtækisins nam 2,3 milljörðum evra. Um er að ræða eitt stærsta útboð Nasdaq Nordic frá upphafi.