Sá erlendi vogunarsjóður sem hagnaðist langmest á kröfum sínum á föllnu íslensku bankana var bandarískur sjóður að nafni Baupost. Baupost er staðsettur í Boston og er stýrt af hinum fræga fjárfesti Seth Klarman.

Stuttu eftir hrun bankanna hófu erlendir vogunarsjóðir, oft nefndir hrægammasjóðir, að kaupa skuldir þeirra á miklu hrakvirði og lýsa kröfum í bú þeirra. Fyrstu dæmin um viðskipti með kröfurnar áttu sér stað á skuldatryggingauppboði í Lundúnum strax í nóvember 2008, einungis mánuði eftir setningu neyðarlaganna svokölluðu, en þar seldust kröfur á Landsbankann á 1,25% af nafnvirði, kröfur á Glitni seldust á 3% af nafnvirði og kröfur á Kaupþing seldust á 6,625% af nafnvirði.

Baupost langstærsti kröfuhafinn

Baupost var langstærsti kröfuhafi föllnu bankanna meðal vogunarsjóða við útgáfu fyrstu kröfuskráa slitabúanna og átti sjóðurinn kröfur á Kaupþing og Glitni upp á alls 464 milljarða króna að nafnvirði í nafni ýmissa skúffufélaga sem kennd voru við íslensk kennileiti. Má þar nefna félög á borð við Geysir Fund, Grindavík Fund og Gullfoss Partners.

Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að sjóðurinn hagnaðist í krónum talið um 96,1 milljarða á fjárfestingu sinni og miðað við 15% ávöxtunarkröfu, sem vogunarsjóðir gera gjarna á fjárfestingu sína, var hreint núvirði viðskiptanna (e. Net Present Value) jákvætt um 45,7 milljarða. Náði sjóðurinn 51,3% árlegri ávöxtun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .