Undanfarin ár hefur Landsvirkjun unnið að því að breyta lánasafni sínu og hætt að taka lán sem fela í sér ríkisábyrgð. Rafnar Lárusson, fjármálastjóri Landsvirkjunar, segir að skilyrði frá ESA (eftirlitsstofnun EFTA)  hafi orðið til þess að ákveðið var að ráðast í þessar breytingar.

„Landsvirkjun er sameignarfélag, sem felur það í sér að eigandinn ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Það var þannig í mörg ár að ríkið veitti ábyrgð beint á lán og aðrar skuldbindingar Landsvirkjunar. Árið 2011 kemur ESA og skoðar þetta fyrirkomulag með sameignarfélagsformið og annað hjá Landsvirkjun, og segir að þetta form sem felur í sér beina ábyrgð eiganda sé í raun ekki hægt að hafa áfram þar sem fyrirtækið sé í samkeppnisrekstri og var þá lögum um Landsvirkjun breytt.

Í kjölfarið á þessari ákvörðun kemur einnig fram skilyrði sem tengist regluverkum ESB um að ábyrgðin megi aðeins nema 80% af lánunum. Hugmyndin frá ESB er því sú að þá þurfi lánveitandinn að horfa á þau 20% sem eftir standa og spyrja hver ábyrgðin þar sé og hvernig staða fyrirtækisins sem er að biðja um lánið er, í stað þess að lánveitandinn hugsi að það sé 100% ríkisábyrgð á láninu og því þurfi ekki að hafa áhyggjur af stöðu fyrirtækisins. Í kjölfarið fengum við mikið af spurningum frá okkar lánveitendum og öðrum um það hvaða þýðingu þetta hefði og hvað verði um þessi 20% sem standa utan ábyrgðarinnar. Flækjustigið var því orðið ansi mikið. Því tókum við þá ákvörðun að hætta með þessa ríkisábyrgð og hefja vinnu við það að losa gamlar ábyrgðir úr fjötrum sínum."

Ekki auðvelt verkefni

Rafnar segir að þetta hafi þýtt það að Landsvirkjun þurfti að fá lánshæfismat án ríkisábyrgðar og kallaði það því á annað mat hjá fyrirtækinu.

„Það fór því gríðarlega mikil vinna í það hjá okkur að kynna og útskýra þessa breytingu sem fólst í því að Landsvirkjun væri hér með mótaðili í lánum sem veitti ekki lengur ábyrgð. Þegar þessar breytingar eru í gangi árið 2011 byrjum við svo að taka ný lán án ábyrgðar á erfiðum tímum í heiminum með tilliti til fjármögnunar. Nokkur lausafjárkrísa ríkti á markaði, þannig að það verður seint sagt að þetta hafi verið auðvelt verkefni, en það gekk þó upp.

Eftir að við vorum búin að taka lán án ábyrgðar fórum við í það að tala við þá lánveitendur okkar sem við þekktum til að vinna í því að fá að taka þessar ábyrgðir í burtu á útistandandi lánum. Það ferli var oft erfitt, sérstaklega fyrir lánveitendurna þar sem þeim leist ekkert alltaf voðalega vel á að taka ábyrgðina út. Á nokkrum árum tókst okkur þó að lækka hlutfall lána með ábyrgð talsvert mikið og við náðum að vinna vel í því að skapa traust á fyrirtækinu meðal lánveitenda."

Sóttu fjármagn til Japan

Að sögn Rafnars voru markaðir mjög lokaðir þegar farið var af stað í fyrrnefnda vinnu árið 2011. Fyrirtækið hafi áttað sig á því að það þyrfti að víkka fjármögnunarleiðir sínar.

„Ef við horfum 15 ár aftur í tímann þá fjármögnuðum við okkur mikið í gegnum Evrópu og þá var fyrirtækið ekki í dollarauppgjöri og því voru margvíslegar myntir sem við gátum sótt þar. Í kjölfar hrunsins varð hins vegar miklu meiri evrumarkaður í Evrópu heldur en dollaramarkaður. Dollarinn var þarna orðinn uppgjörsmynt okkar og því vantaði okkur dollara. Við höfðum aðgengi að evrum í gegnum Evrópu en ef við hefðum sótt okkur evrur þá hefðum við þurft að skipta þeim yfir í dollara með tilheyrandi afleiðukostnaði. Því sáum við að við þurftum að stækka okkar kúnnahóp og fórum þá markvisst að skoða Bandaríkin og aðrar leiðir í gegnum Evrópu. Auk þess sóttum við meðal annars fjármögnun til Japan úr japönskum bönkum í Bandaríkjadal."

Gáfu út græn skuldabréf í Bandaríkjunum

„Í kjölfar þessa fórum við aftur að huga að okkar kjarnamarkaði, sem er Bandaríkin og gáfum út skuldabréf þar til einkafjárfesta. Þarna ákváðum við að prófa að gefa út svokölluð græn skuldabréf. Þessi grænu skuldabréf eru notuð til að fjármagna eða endurfjármagna verkefni sem stuðla að sjálfbærri, ábyrgri og skilvirkri nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi til að framleiða endurnýjanlega orku. Við komumst fljótlega að því að það höfðu fá fyrirtæki farið inn á Bandaríkjamarkað undir þessum formerkjum en þessi leið var mun þekktari í Evrópu. Undirbúningurinn fyrir komuna á Bandaríkjamarkað tók því nokkuð langan tíma.

Þegar við fórum svo af stað með útgáfuna fengum við sterk jákvæð viðbrögð. Við ætluðum að sækja 100 milljónir dollara en enduðum á því að fá tilboð upp á 700 milljónir dollara. Því kom upp ákveðið lúxusvandamál hjá okkur og á endanum stækkuðum við útgáfuna og gáfum út græn skuldabréf fyrir 200 milljónir dollara. Fyrir vikið þá réðum við svolítið mikið ferðinni þar sem það voru svo margir sem vildu taka þátt. Við gátum því í krafti þess gætt að því að það væru engin aukaskilyrði sett á okkur af fjárfestum í útgáfunni. Við komumst að því í ferlinu að fyrir fjárfestum var þessi græni vinkill mjög áhugaverður, en á meðal fjárfesta sem fjárfestu í okkur eru nokkrir af stærstu lífeyrissjóðum Bandaríkjanna og stórir fjárfestingasjóðir," segir Rafnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .