Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,56% fyrsta viðskiptadag vikunnar. Fór hún upp í 1.793,42 stig í 2,1 milljarða viðskiptum. Aðalvísitala Skuldabréfa hækkaði einnig, eða um 0,19% í 3,2 milljarða viðskiptum og stendur hún nú í 1.366,72 stigum.

Grænt var um að litast í kauphöllinni í dag og var einungis eitt fyrirtæki sem lækkaði í verði, en það var Síminn, sem lækkaði um 0,24% í 55 milljóna viðskiptum. Fór gengi bréfa félagsins niður í 4,17 krónur.

Gengi nokkurra fyrirtækja hélst það sama frá upphafi viðskipta til loka dags, það er haga, Marel, Eimskipa og Skeljungs, þrátt fyrir ríflega hálfs milljarðs viðskipti með bréf Marel og 147 milljóna viðskipti með bréf Haga.

Gengi fasteignafélagsins Regins hækkaði mest, eða um 2,84% í 348,5 milljóna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 25,35 krónur.

Næst mest verðhækkun var á bréfum Origo, áður Nýherja, eða um 2,04% í 25 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfanna er nú 25,00 krónur.