Samtök fiskimanna og veiðimanna á Grænlandi, KNAPK, hafa lýst óánægju með þá ákvörðun stjórnvalda þar í landi að binda þorskkvótann á næsta ári við 25.000 tonn sem er hið sama og á þessu ári. Formaður KNAPK, Henrik Sandgreen, segir að sjómenn meðfram allri vesturströndinni, allt frá Paamiut í suðri til Diskóflóans í norðri, staðhæfi að þorskstofninn sé stöðugt að stækka. Þetta hafi komið fram á fundi þeirra í Nuuk í síðustu viku.

Samtökin leggja til að þorskkvótinn verði aukinn úr 25.000 tonnum í 45.000 tonn á næsta ári. Þetta sé raunhæft því fleiri árgangar beri nú uppi veiðistofninn en áður og kvótaaukning sé einnig forsenda þess að fiskframleiðendur þori að fjárfesta meira í landvinnslu, til dæmis flakavinnslu.

Grænlenska útvarpið skýrir frá þessu.