Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,91% í rúmlega 1,4 milljarða viðskiptum gærdagsins og stendur hún nú í 1.741,33 stigum. Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um rétt 0,01% í 778 milljóna viðskiptum og stendur hún nú í 335,115 stigum.

Ekkert fyrirtæki lækkaði í virði í kauphöllinni í gær, en þrjú stóðu í stað í litlum og engum viðskiptum. Það voru Sýn, áður Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, Eimskip og Origo.

Mest hækkun var hins vegar á bréfum N1, eða 1,87% í 175 milljóna viðskiptum og fóru þau í 109,00 krónur. Næst mest var hækkun bréfa Reginn, eða um 1,57% í 80 milljóna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 24,27 krónur.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Sjóvá, eða fyrir 192 milljónir. Hækkuðu bréfin um 1,41% og var lokagengi þeirra við lokun markaða í gær 15,85 krónur.