Ungur marxískur aðgerðasinni að nafni Ben Gliniecki hafði hugsað sér að heimsækja gröf heimspekingsins og hagfræðingsins Karls Marx í sumar. Þegar hann kom til Highgate-kirkjugarðsins í London þar sem faðir marxismans var lagður til hinstu hvílu uppgötvaði hann að heimsóknin kostar einhver fjögur pund á mann, eða rétt rúmar 800 íslenskar krónur. Ben var vægast sagt ósáttur.

„Mér finnst þetta viðbjóðslegt,“ sagði marxistinn ungi í viðtali . „Svo virðist sem það séu engin takmörk á því hversu lágt kapítalistar eru tilbúnir að leggjast, svo lengi sem þeir sjá sér fært að græða á því.“

Góðgerðasamtökin sem sjá um kirkjugarðinn hafa aðra skoðun á málinu. Marx ákvað sjálfur að kaupa dánarbeð í þessum einkarekna kirkjugarði fram yfir þá valkosti sem voru í boði ríkisins á þeim tíma. Að þeirra sögn niðurgreiðir heimsóknargjaldið kostnaðinn sem fylgir viðhaldi á þessum 170 þúsund manna kirkjugarði. Ekki ku legugjaldið eilífa þó hafa kostað Marx mikið, eða rétt um það sem jafngildir nú til dags 625 íslenskum krónum.

Legsteinn og minnisvarði hugsuðarins gamla hefur verið vinsælt skotmark gegnum tíðina. Reynt hefur verið að sprengja hann í loft upp í tvígang. Árið 1970 gerði skemmdarvargur tilraun til að skera gat á nef brjóstmyndarinnar og troða sprengiefnum inn í holt höfuðið. Tilraunin mistókst þó og sprengjunni varð lítið annað ágengt en að koma dálitlum skemmdum á undirstöðu minnisvarðans sem á voru letruð hin frægu orð: „Öreigar allra landa, sameinist!“