Þónokkur rótgróin fyrirtæki hafa hækkað töluvert í virði það sem af er viðskipta í kauphöllinni í dag.

Þegar þetta er skrifað hefur hækkun á gengi HB Granda verið mest, eða sem nemur 4,01% í 100 milljón króna viðskiptum og er gengi bréfanna nú 33,75 krónur.

Hækkun á bréfum Icelandair hefur svo verið næst mest eða sem nemur 3,57% í 223 milljón króna viðskiptum. Fæst nú hvert bréf félagsins á 14,50 krónur.

Eimskip hefur einnig hækkað töluvert í virði frá í morgun, eða sem nemur 3,31% í 303 milljón króna viðskiptum og er hvert bréf þess nú á genginu 328,00 krónur.

Bréf Tryggingamiðstöðvarinnar lækkuðu um 5,20% í viðskiptum morgunsins í 64 milljón króna viðskiptum, en eins og kom fram í leiðréttingu frá fyrirtækinu í morgun er arðleysisdagur bréfa félagsins í dag, en ekki 19. mars næstkomandi eins og ranglega hafði verið getið í tilkynningu frá í gær sem send var að loknum aðalfundi félagsins.

Úrvalsvísitalan hefur svo hækkað um 1,33% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 1.753,12 stigum.