„Gamlar skýrslur segja að grásleppan hreyfi sig ekki mikið heldur fari bara niður á botn og haldi sig þar þangað til hún kemur aftur á grunnslóð til að hrygna,“ segir James Kennedy, starfsmaður Hafrannsóknastofnunar sem hefur aðstöðu hjá sjávarlíftæknisetrinu Biopol á Skagaströnd.

Hann hefur undanfarin ár stundað viðamiklar rannsóknir á hrognkelsum og meðal annars fylgst grannt með ferðum þeirra umhverfis landið. Það hefur verið mögulegt með því að setja merkingar í fjölda fiska.

„Merkingarnar sýna að hrognkelsið hreyfir sig mikið allt í kringum Ísland. Ég held að þetta hafi komið svolítið á óvart.“

Í ljós hefur komið að utan hrygningartíma heldur hrognkelsið sig á meira dýpi en þegar komið er að hrygningu færir það sig upp í grynnri sjó þar sem grásleppan er veidd. Þá halda sumir fiskar sig nokkurn veginn á sömu slóðum þegar þeir eru á grunnsævi, en sumir ferðast langar leiðir meðfram ströndinni á hrygningartímanum.

„Þannig að fiskimennirnir eru ekki að veiða fiska sem eru staðbundnir heldur veiða þeir fiskinn þegar hann kemur til að hrygna. Ef fiskarnir lifa þá fara þeir aftur út á meira dýpi þar til næst er komið að hrygningu.“

Kennedy er frá Skotlandi en hafði áður stundað rannóknir meðal annars á grálúðu og skarkola. Þær rannsóknir vann hann hjá Møreforskning Marine í Noregi og í tengslum við doktorsverkefni sitt á eyjunni Mön í Írlandshafi. Grásleppurannsóknir hafa hins vegar átt hug hans allan frá því hann flutti hingað til lands árið 2013.

„Ég sá þetta auglýst og hugsaði með mér að þetta gæti hentað mér,“ segir hann, sló til og fékk starfið. Síðan þá hefur hann birt greinar um grásleppurannsóknir sínar árlega í ritrýndum tímaritum. Rannsóknirnar eru byggðar á gögnum úr merkingum á grásleppu og sýnatöku víðs vegar um landið, mest þó á Norðurlandi.

Merkir á hverju ári
„Við höfum verið að merkja á hverju ári síðan ég kom, en með ólík markmið í huga. Fyrst reyndum við að merkja fisk til að sjá hve margir þeirra myndu snúa aftur, en það reyndist erfitt því fáir skiluðu sér til baka.“

Skýringin á því segir hann líklega tengjast því að fiskurinn hafi verið merktur í lokin á veiðitímabilinu. Það hafi verið gert til að minnka líkurnar á því að merktu fiskarnir yrðu veiddir strax á sömu vertíð.

„Hins vegar virðist það vera þannig að ef grásleppan hrygnir í lokin á hrygningartímanum þá hrygnir hún líka í lok hrygningartímans árið eftir, þannig að veiðitímanum getur verið lokið þegar fiskurinn snýr aftur.“

Hann segir líka hafa komið í ljós að grásleppan fer dýpra en áður var talið.

„Sumir fiskanna gerðu það að minnsta kosti. Einn fór alveg niður á 500 metra dýpi en flestir héldu sig á 300 metra dýpi eða ofar. Þessi hreyfing upp og niður kom töluvert á óvart. Sumir fóru nokkur hundruð metra innan eins dags og það er dálítið magnað.“

Rannsóknirnar hafa einnig gefið vísbendingar um að hrygningartími grásleppustofnsins við Ísland standi öllu lengur yfir en þeir fjórir mánuðir sem gengið hefur verið út frá hér.

Vaxtarhraðinn næst skoðaður
Stefnt er á nýjar rannsóknir í sumar þar sem athyglinni verður beint að vaxtarhraða grásleppunnar.

„Við vitum ekki enn hver vaxtarhraðinn er og ætlum að merkja fisk hér á Skagaströnd og fáum síðan vonandi fiskinn sjálfan aftur til okkar. Venjulega fáum við bara merkin til baka en ekki fiskinn sjálfan og þá er frekar erfitt að meta áreiðanleika mælinganna.“

Grásleppan er nefnilega svo nálægt því að vera kringlótt í lögun að erfitt hefur verið að mæla lengdina.

„Við höfum verið að fá mjög ólíkar stærðarmælingar frá fólki en við notum staðlaðar aðferðir við mælinguna sem gefur nákvæmari niðurstöður,“ segir Kennedy.

„Við ætlum líka að merkja litla fiska í makrílleiðangri Hafró. Við höfum aldrei merkt svona litla fiska áður þannig að við þurfum að sjá til hvernig það gengur. En þegar fiskurinn birtist í veiðunum sjáum við hve langur tími er liðinni og fáum þá hugmynd um vaxtarhraðann hjá ungu fiskunum.“