ARK Technology, Íslenskt rannsóknarfélag, sem nýtir hátæknilausnir félagsins til að rannsaka umhverfisáhrif skipaumferðar, hefur valið GreenQloud, fyrsta umhverfisvæna tölvuskýið í heiminum sem sinn hýsingaraðila og sem tæknilegan ráðgjafa. ARK Technology og GreenQloud eru bæði íslensk fyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi. Bæði leggja ríka áherslu á sjálfbærni með því að veita þjónustu miðaða að því að minnka gróðurhúsaáhrif á heimsvísu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá GreenQloud.

GreenQloud mun veita ARK tæknilega ráðgjöf og aðstoð við útfærslur á lausnum ARK sem fela í sér eftirlit með útblæstri gróðurhúsalofttegunda og annarra mengunarvalda.Lausnina geta fyrirtæki og aðilar sem reka skip nýtt til þess að minnka útblástur síns flota og þar með mæta lagasetningum sem Evrópusambandið hefur kynnt og taka gildi árið 2016. ARK Technologies mun nýta GreenQloud, fyrsta og eina græna tölvuskýið í heimi til að hýsa lausnina sem getur skalast hratt í tölvuskýinu eftir vexti félagsins.

“Sem íslenskt félag, sem hefur það sem eitt af sínum meginmarkmiðum að halda höfum heimsins hreinum og lausum við mengun, var það auðvelt val að velja GreenQloud, íslenskt fyrirtæki sem á alþjóðavísu leggur sitt á vogarskálarnar til að vekja athygli á og draga úr losun koltvísýrings af völdum upplýsingatækni, til þess að keyra eftirlitslausn okkar,” segir Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, Stjórnarformaður ARK Technology.

“Samstarf GreenQloud og ARK hefur nú verið skrifað í skýin. Það er virkilega spennandi að félag eins og ARK Technology sem hefur það sem sitt meginmarkmið að halda höfum heims hreinum og lausum við mengun, velji GreenQloud sem samstarfsaðila. Fátt hefur verið eins mikilvægt og jafn gjöfult í gegnum tíðina, eins og hafið í kringum okkur Íslendinga. Á Íslandi eru gríðarleg tækifæri fyrir hendi á öllum sviðum sjálfbærni. Við erum að sjá mörg spennandi félög koma fram sem hafa þau markmið að bæta ekki bara sitt nærumhverfi heldur heimsins og við erum það lánsöm að hafa unnið með mörgum þeirra.” Segir Jón Þorgrímur Stefánsson Framkvæmdarstjóri GreenQloud.

Um ARK Technology

ARK Technology er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki stofnað haustið 2013. ARK þróar hátæknilausn til að mæla áhrif skipaumferðar á umhverfið. Hluti af kjarnastarfsemi félagsins felst í því að rannsaka og mæla útblástur skipa, sem og að rannsaka áhrif lagasetningar til verndar umhverfisins.

ARK er að svara þörfum þeirra sem stunda rekstur á sjó en sá iðnaður er nú undir miklum þrýstingi þar sem lítið er um eftirlit með útblæstri skipaumferðar. Áskorun iðnaðarins felst í því að minnka útlosun gróðurhúsalofttegunda en halda skipaflutningum jafnframt samkeppnishæfum við aðrar flutningsleiðir.

Þrátt fyrir að sjóumferð sé í dag ábyrg fyrir um 5% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda er búist við því að hlutur sjóumferðar muni aukast um allt að 72% fyrir 2020 ef ekki verður gripið til aðgerða. Fyrir utan gróðurhúsalofttegundir felur útblástur sjóumferðar í sér losun á skaðlegum mengunarvöldum svo sem súlfoxíð (SOx), köfnunarefnisoxíð (NOx), prometheum (PM) og fleiri efnum sem hafa mjög skaðleg áhrif bæði á náttúru og fólk.

Um GreenQloud

GreenQloud býður upp á fyrsta græna tölvuský heimsins sem keyrir á sjálfbærri orku ásamt því að fyrirtækið hóf að bjóða vöruna QStack, sem er hugbúnaður til að reka “einkatölvuský” (Private Cloud), í byrjun ársins með gríðarlega góðum árangri. Helstu eiginleikar lausna GreenQloud eru einfalt en öflugt notendaviðmót ásamt því að bjóða uppá leiðandi vefþjónustuleiðir (API) til að veita möguleikann á fullri sjálfvirkni í stjórnun tölvubúnaðar.

Helstu eigendur félagsins eru stofnendurnir, þeir Eiríkur Sveinn Hrafnsson og Tryggvi Lárusson, Keel Investments LLC og Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins.

GreenQloud hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar og verðlaun fyrir brautryðjendastarf og veitti hið virta ráðgjafafyrirtæki Gartner, GreenQloud titilinn Cool Vendor in Green IT and Sustainability ásamt því að hafa unnið 2013-2014 Cloud Awards fyrir bestu skýjaþjónustuna, meðal efstu sæta á 2Degrees Network Champion Awards, Sustania100 og Tech Trailblazers verðlaunana. GreenQloud hefur fengið mikla umfjöllun og athygli fyrir stefnu sína í umhverfismálum og hefur m.a. fengið styrki frá íslenska ríkinu og hafa Tækniþróunarsjóður og Nýsköpunarmiðstöð styrkt fyrirtækið.

GreenQloud hýsir í gagnaverum Verne Global og Advania THOR DC á Íslandi og í gagnaveri Digital Fortress í Seattle í Bandaríkjunum.