Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, telur þær miklu umbætur sem ráðist var í á bandaríska fjármálakerfinu ekki hafa leyst nein vandamál.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Greenspan gagnrýnir aðgerðir stjórnvalda í kjölfar hrunsins, en hann hefur gagnrýnt Dodd-Frank lögin svokölluðu allt frá árinu 2010. Samkvæmt fréttaveitu Bloomberg, vill hann helst sjá lögin felld úr gildi.

Greenspan hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir síendurtekin ummæli sín, en margir segja hann hafa átt lykilþátt í hruninu. Greenspan telur lögin einfaldlega allt of flókin og hamlandi. Að mati fyrrverandi seðlabankastjórans, ætti því að fella lögin úr gildi og t.d hækka bindiskyldu.

Greenspan telur að vanskil geti alveg eins átt sér stað í dag og árið 2008. Dodd-Frank lögin hjálpa að hans mati ekkert við að styrkja bankanna, og því séu þau í raun og veru algerlega gagnslaus. Það sem þurfi að gera er að tryggja það að bankarnir geti tekið á sig skelli. Flókið regluverk gerir að hans mati ekkert til þess að styrkja þá.

Sérfræðingar hafa lýst yfir áhyggjum á alls kyns lögum sem sett hafa verið á fjármálafyrirtæki í kjölfar hrunsins. Margir reyndir lögfræðingar telja lögin jafnvel skapa frekari áhættu, þar sem bankar hafa neyðst til þess að þjappa sér saman.