Bandaríska fyrirtækið Johnson & Johnson, sem framleiðir snyrtivörur, hefur verið dæmt af dómstól í Missouri til að greiða 22 konum samtals 4,7 milljarða dollara í skaðabætur. Konurnar vilja meina að barnapúður félagsins hafi valdið því að þær fengu krabbamein í eggjastokkum. BBC greinir frá þessu.

Þetta dómsmál er langt frá því að vera eina lögsókn sem fyrirtækið stendur í, en 9.000 önnur mál eru í gangi vegna barnapúðursins. Fyrirtækið kveðst vera mjög óánægt með þessa niðurstöðu dómsins og stefnir á að áfrýja niðurstöðunni.

Lögmenn kvennanna segja að Johnson & Johnson hafi verið varir við það frá áttunda áratugnum að asbest hafi fundist í púðrinu. Þrátt fyrir það hafi fyrirtækið ekki varað notendur púðursins við þeirri hættu sem stafaði af notkun þess.

Johnson & Johnson neitar því að vörur félagsins hafi innihaldið asbest og hafna því að þær valdi krabbameini.