Seðlabankinn fékk staðfestingu hjá Seðlabanka Danmerkur um að veðið í FIH bankanum fyrir þrautavaraláninu til Kaupþings væri traust en þegar upp var staðið eftir söluna árið 2012 tapaði bankinn 25 milljörðum króna af láninu.

Kaupþing fékk 500 milljóna evru lán til að reyna að bjarga honum frá hruninu 2008 en hann féll samt sem áður líkt og hinir bankarnir, þremur dögum seinna.

Veðið ríflegt andvirði lánsins

Í kjölfarið eignaðist Seðlabankinn FIH bankann í Danmörku að fullu, en Davíð Oddsson, þáverandi Seðlabankastjóri, hefur sagt að andvirði bankans hafi verið ríflegt andvirði lánsins.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um segir Davíð Oddsson ákvörðunina hafa verið Geirs, en Geir neitar því og segir valdið hjá Seðlabankanum.

FIH bankinn seldur á undirverði eftir þrýsting

„Það getur vel verið að það hafi verið vilji ríkisstjórnarinnar að gera þetta, það getur vel verið að ríkisstjórnin hafi lagt á það allt kapp, en auðvitað svona stjórnarfarslega þá er þessi ákvörðun á ábyrgð Seðlabankans,“ sagði Már Guðmundsson spurður um málið í febrúar í fyrra, en hann tók við sem Seðlabankastjóri árið 2009.

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins frá því í júní virðist sem mikill þrýstingur hafi verið lagður á Seðlabanka Íslands af háttsettum mönnum í danska stjórnkerfinu um að samþykkja söluskilmála sem tryggðu á endanum að kaupendur þurftu ekki að greiða 62% af upprunalegu kaupverði bankans.

Í skriflegu svari Seðlabankans til RÚV um málið staðfestir bankinn að til standi að gera skýrslu um málið en Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði að því stefnt í áðurnefndu viðtali fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan.