Skiptastjórar þrotabús Wow air skoða nú riftun um 550 milljóna króna greiðslu flugfélagsins til Arion banka í kjölfar skuldabréfaútboðs þess í haust, samkvæmt frétt Markaðarins í morgun. Bankinn setti greiðslu yfirdráttarskuldar sem skilyrði fyrir þáttöku í útboðinu upp á sömu upphæð, svo í reynd var aðeins um skuldbreytingu að ræða.

Eins og áður hefur komið fram var stór hluti þess fjár sem safnaðist í skuldabréfaútboði Wow air síðastliðið haust í raun skuldbreyting skammtímaskulda, en ekki nýtt fé sem kom inn í reksturinn. Þrotabú félagsins hefur nú ráðið ráðgjafafyrirtækið Deloitte, meðal annars til að kanna möguleika á riftun greiðslunnar til Arion.

Ekki var upplýst um skuldbreytingarhluta útboðsins fyrr en eftir að flugfélagið var komið í þrot, en þeir fjárfestar sem raunverulega lögðu félaginu til nýtt fé segja farir sínar ekki sléttar, enda hefði málið horft öðruvísi við þeim hefðu þeir haft þá vitneskju. Þeir vilja samkvæmt heimildum Markaðarins láta reyna á ábyrgðartryggingar stjórnenda hins fallna flugfélags vegna málsins.