*

mánudagur, 20. ágúst 2018
Innlent 19. september 2017 22:04

Greinargerð um Lindarhvol loks gerð opinber

Lindarhvoll íhugar að ráðstafa ósöluhæfum eignum beint til niðurgreiðslu lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs.

Pétur Gunnarsson
Málefni Lindarhvols fellur undir fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Haraldur Guðjónsson

Lindvarhvoll ehf., félag sem stofnað var til að annast umsýslu, fullnustu og sölu, á stöðugleikaeigna sem ríkissjóður fékk í sinn hlut í tengslum við nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja, íhugar að ráðstafa þeim eignum félagsins sem eru ekki söluhæfar – beint til niðursgreiðslu lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýútgefinni greinagerð um starfsemi Lindarhvols ehf., sem að birt var á vefsíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. 

Meðal eigna félagsins er Lyfja. Í fyrra fór fyrirtækið í opið söluferli, en þá var tilboði Haga hf. í félagið tekið. Í júlí á þessu ári kom í ljós að ekki yrði af kaupum Haga á Lyfju, þar sem að Samkeppniseftirlitið hafnaði samruna félaganna tveggja. Í greinagerðinni segir að stjórn félagsins muni „meta næstu skref í málinu,“ á næstu vikum. Aftur á móti er það skoðun Lindarhvols ehf., að ekki sé talið heppilegt að setja önnur óskráð hlutabréf í umsýslu félagsins í söluferli að svo stöddu, þar sem slík sala „muni ekki verða til þess að hámarka vermæti viðkomandi hlutabréfa m.a. vegna eðli eignanna og annarra þátta sem snúa sérstaklega að einstökum eignum í þessum eignaflokki,“ segir í greinagerðinni. 

Skilyrtar fjárópseignir eru að mati forsvarsmanna Lindarhvols þannig gerðar að ekki sé hægt að setja þær í sölu af hálfu félagsins og því verði að bíða eftir að slitabúin ljúki þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að skilyrðum verði aflétt. „Sökum þess að ofantaldar eignir eru ekki söluhæfar, gæti komið til greina að ráðstafa þeim beint til niðurgreiðslu lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs. Þannig væri unnt að hámarka virði þeirra fyrir ríkissjóð,“ segir í greinagerðinni.

Framlengir líf Lindvarhvols

Stefnt var að því að draga úr starfsemi félagsins strax á fyrri hluta þessa árs. Þó varð ekkert að því. Vegna niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins varðandi Lyfju og til þess að klára ráðstafanir á öðrum eignum, mun félagið starfa áfram um ótiltekinn tíma að því er kemur fram í greinagerðinni. Einnig kemur þar fram að ekki óvarlegt sé að áætla að unnt verði að slíta starfsemi félagsins á fyrri hluta árs 2018. 

Í ítarlegri umfjöllun Viðskiptablaðsins í síðasta tölublaði var meðal annars rætt við Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, en þar tók hann fram að fjármálaráðherra taldi að Samkeppniseftirlitið hafi ekki tekið nægt tillit til breyttra markaðsaðstæðna. Þá var bent á að ráðherra hafi hvorki skilað skýrslu – né ársreikning um starfsemi Lindarhvols, eins og kveðið er á um í lögum.

Lindarhvoll hefur selt alla hluti ríkissjóðs í Sjóvá, Reitum, Glitni Holdco ehf., Klakka ehf., Gamla Byr eignarhaldsfélagi ehf. og Vörukaupum ehf. Í skýrslu Lindarhvols frá því í mars kom fram að búið hafði verið að koma stöðugleikaeignum að verðmætu um 100 milljarða króna í verð.