Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu mun hækka um 15% til viðbótar þar til það staðnar síðla á næsta ári. Stöðnun mun ríkja á íbúðamarkaðnum allt árið 2007. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis er nú um 175 þúsund krónur á fermetra að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu og mun það fara yfir 200 þúsund áður en kemur að tímabili stöðnunar. Heildarverðmæti íbúðareignar höfuðborgarbúa mun fara upp í ríflega 1.500 milljarða króna og hækka um tæplega 200 milljarða frá núverandi stöðu fyrir árið 2007. Svo mikil hækkun hefur víðtæk áhrif á efnahagslífið ? eykur neyslu, fjárfestingu og eflir hagvöxt um hríð svo eitthvað sé nefnt. Þetta kom fram á fræðslufundi Íslandsbanka í gær.

Í erindi Ingólfs Bender, forstöðumanns Greiningar Íslandsbanka, kom fram að dregið hefur úr hraða hækkana á íbúðaverði frá því í upphafi þessa árs. Draga mun enn frekar úr hraða hækkunar á næstunni þegar áhrif aukins lánaframboðs og lækkunar langtímavaxta fjara út. Einnig eru væntingar um að verð muni staðna og verðbólga aukist samhliða lækkun gengis krónunnar. Þá mun draga úr hækkun launa þegar líða tekur á næsta ár og áhrif vaxandi og mikils framboðs nýbygginga mun fara að gæta í auknu mæli. Þessir þættir munu á endanum valda því að verð staðnar síðla á næsta ári líkt og áður sagði.

Lítið má út af bregða á næstunni svo að ekki komi til lækkunar á markaðsverði íbúðarhúsnæðis. Vel má hugsa sér feril sem gæti leitt til lækkunar. Samdráttur í lánaframboði, hækkun langtímavaxta eða aukin verðbólga samhliða gengislækkun krónunnar og mikil aukning í lóðaframboði eru þættir sem gætu kallað fram verðlækkun íbúða. Slík þróun gæti jafnvel leitt til samdráttar í hagkerfinu. Þessi niðurstaða er ekki líkleg en að hana er ekki hægt að útiloka.

Raunverð íbúða er í sögulegu hámarki um þessar mundir og má telja líklegt að það muni hækka enn frekar fram á næsta ár. Gera má ráð fyrir að sú hækkun verði tiltölulega lítil eða um 6%. Reikna má með lítilsháttar lækkun raunverðs íbúðarhúsnæðis á árinu 2007. Sú staðreynd að raunverð íbúða standi hátt um þessar mundir segir ekki að það muni lækka á næstunni. Reynsla iðnvæddra ríkja er að raunverð íbúðarhúsnæðis getur hækkað yfir lengri tíma. Þannig hefur raunverð íbúða í helstu iðnríkjunum hækkað um tæplega 2% á ári að meðaltali síðastliðna þrjá áratugi eða álíka og hagvöxtur hefur verið á mann.