Markaðsaðilar tóku vel í kaupin Marel á hollenska fyrirtækina MPS og fjármögnun sem fyrirtækið hefur tryggt sér með hjálp Rabobank. Gengi Marel hefur hækkað mikið eftir að tilkynnt var um kaupin og fjármögnunina síðustu helgi. Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir litlar fjárhagslegar upplýsingar liggja fyrir um MPS. Hvað varðar staðsetningu og framleiðslu virðist félagið þó falla ágætlega að Marel.

„Það hentar Marel ágætlega miðað við þann stað sem félagið var komið á að auka skuldsetninguna dálítið. Þetta ætti að leiða til þess að arðsemi eigin fjár og arðsemi á hlut ætti að aukast. Það er kannski fyrst og fremst út af því sem við erum að sjá svona sterk viðbrögð á markaði við þessa fjárfestingu,“ segir Stefán.

Stórfín kaup

Jóhann Viðar Ívarsson, sérfræðingur hjá IFS Greiningu, segir kaupin virðast vera stórfín. Hann er sammála því að starfsemi MPS passi vel inn í framleiðslukeðju Marel, en segir að það sé ekki endilega aðalatriðið. „Það sem skiptir meira máli í mínum huga er að MPS er greinilega mjög arðbært félag í kjöti sem Marel getur hugsanlega lært af,“ segir Jóhann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .