Á þriðjudaginn tilkynnti Straumur að skráningu hlutafjár í evrum yrði frestað í kjölfar athugasemda frá Seðlabanka Íslands. "Þetta mál er í gangi og við gerum ráð fyrir að það leysist innan nokkurra daga," sagði Davíð Oddsson í samtali við Viðskiptablaðið í gær. Hann segir að erindi Straums hafi borist Seðlabankanum síðastliðinn föstudag og strax hafi verið gerðar athugasemdir. "Við gerum athugasemd við þær aðferðir sem menn ætluðu að viðhafa enda stóðust þær ekki endilega lagabókstafinn og það er nauðsynlegt að honum sé fylgt eftir. Nú leitum við leiða til að svo megi verða, það mun ekki taka langan tíma," segir Davíð.


Beðinn um að útskýra þær athugasemdir nánar sagði Davíð að samkvæmt lögum verði uppgjörspunktur viðskiptanna að vera hjá Seðlabankanum sem getur samkvæmt lögum ekki framselt þau annað. Áður hafði verið tilkynnt að til stæði að Landsbankinn sæi um greiðsluuppgjör viðskiptanna eða þar til búið væri að semja við Seðlabanka Finnlands um það hlutverk.


Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir það vafamál hvort að túlkun á því lagaákvæði sem um ræðir standist nánari skoðun. "Við erum þeirrar skoðunar að það sé ekki vafalaus túlkun á þessu ákvæði hjá Seðlabankanum en það er mál sem þarf að leysa enda er þetta gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir markaðinn hérna heima. Nú er svo komið að stóru fyrirtækin eru orðin mjög alþjóðleg í sinni starfsemi og þau þurfa að eiga kost á því að gera upp og skrá hlutafé sitt í erlendum gjaldmiðlum. Að öðrum kosti er hætt við því að þessi fyrirtæki skoði aðrar leiðir, hugsanlegar skráningar í nálægum löndum. Þetta væri niðurstaða sem kæmi til með að breyta mjög mikið þeirri framtíðarsýn að Ísland geti orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð," sagði Þórður í samtali við Viðskiptablaðið.


(Sjá meira í Viðskiptablaðinu í dag)