Mánaðarleg samantekt Einkaleyfastofunnar um skráð vörumerki, einkaleyfi og hönnun á Íslandi, ELS, sýnir að í síðasta mánuði voru skráð 572 vörumerki hér á landi og er það mesti fjöldi skráðra vörumerkja í einum mánuði í tíu ár. Það sem af er árinu hefur Einkaleyfastofa skráð nærri 1.000 vörumerki samanborið við 3.400 allt árið í fyrra. Að sögn samskiptafulltrúa Einkaleyfastofunnar, Jóns Gunnarssonar, má meðal annars rekja aukninguna til vitundarvakningar hjá stjórnendum fyrirtækja og uppgangs í efnahagslífinu.

43% fleiri umsóknir frá íslenskum aðilum

„Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að stjórnendur íslenskra fyrirtæki virðast vera að taka við sér og átta sig á mikilvægi vörumerkja þegar kemur að viðskiptum og rekstri fyrirtækja. Það sem af er ári hefur okkur borist 43% fleiri umsóknir frá íslenskum aðilum samanborið við sama tíma í fyrra og það þrátt fyrir að árið í fyrra hafi verið mjög gott og íslenskum umsóknum hafi fjölgað um 19% miðað við árið þar á undan. Það er því ljóst að við erum að horfa upp á gríðarlega aukningu,“ segir Jón.

Hann segir stofnunina greina nokkrar ástæður að baki aukningunni. „Við nánari skoðun kemur í ljós að það eru ýmis stór íslensk fyrirtæki sem hafa verið að sækja um skráningu. Þessi fyrirtæki virðast mörg hafa lagst í töluverða vinnu við að yfirfara stöðu vörumerkja hjá sér og ákveðið í kjölfarið að skrá ýmis merki sem hafa ekki verið skráð til þessa. Fyrirtæki eru í auknum mæli að kanna þau verð­ mæti sem leynast innan fyrirtækisins og grípa um leið til aðgerða til að vernda þau. Stjórnendur eru greinilega farnir að átta sig á mikilvægi þess að bera kennsl á vörumerkin og vernda þau með skráningu enda veitir það eignarrétt á vörumerkinu,“ útskýrir Jón.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.