*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 26. apríl 2013 09:00

Gríðarleg eftirspurn í hlutafjárútboði TM

Alls bárust tilboð að fjárhæð 357 milljarðar króna í hlutafjárútboði TM.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í almennu hlutafjárútboði í Tryggingamiðstöðinni bárust 7.000 tilboð að heildarandvirði 357 milljarðar króna. Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að útboðsgengi hafi verið ákveðið 20,1 króna á hlut og nemur söluandvirðið á þeim 28,7% hlut í fyrirtækinu sem var til sölu 4,4 milljörðum króna á útboðsgengi.

Ljóst er að margir hafa boðið mun meira en þeir raunverulega vildu greiða fyrir hlutinn og jafnvel meira en þeir gætu greitt. Hefur vb.is heyrt af einu tilviki þar sem fjárfestir bauð milljarð króna til að tryggja sér kaup á hlutafé fyrir 20 milljónir króna. Ekki er því hægt að tala um að fjárhæð tilboða í útboðinu endurspegli raunverulega eftirspurn eftir hlutabréfunum. 

Enginn hluthafa í TM mun eiga yfir 10% eignarhlut í fyrirtækinu. Í áskriftarhluta útboðsins, þar sem tekið var við áskriftum frá 100.000 krónum til 49.999.999 króna, bárust áskriftir fyrir samtals 22 milljarða króna. Í ljósi mikillar þátttöku hefur hámarksfjárhæð í þessum hluta útboðsins verið ákveðin 452.250 krónur. Áskriftir upp að þeirri fjárhæð verða ekki skertar.

Í þeim hluta útboðsins þar sem tekið var við áskriftum að fjárhæð að lágmarki 50 milljónir króna bárust áskriftir fyrir samtals 335 milljarða króna. Tryggð er lágmarksúthlutun í þessum hluta að fjárhæð 452.250 kr. en skerðing umfram lágmarksúthlutun er ákvörðuð hlutfallslega, þó þannig að hæsta einstaka úthlutun nemur um 5,8 milljónum króna.