Kristín Pétursdóttir, forstjóri Mentor, hefur verið áberandi í íslensku viðskiptalífi í gegnum tíðina og á áhugaverðan starfsferil að baki þar sem hún kom meðal annars að uppbyggingu Kaupþings og stofnaði Auði Capital ásamt Höllu Tómasdóttur. Í gegnum samruna fyrirtækja rann Auður Capital síðar inn í verðbréfafyrirtækið Virðingu þar sem Kristín situr í dag sem stjórnarformaður en fyrirtækið hefur verið í brennidepli að undanförnu vegna yfirvofandi samruna við fjárfestingarbankann Kviku.

Samruni Kviku og Virðingar er langt kominn en það vekur hins vegar spurningar um hvað verði um stöðu Kristínar hjá fyrirtækinu en sem fyrr segir starfar hún í dag sem stjórnarformaður Virðingar. „Það á í raun bara eftir að koma í ljós, ég er eins og aðrir hluthafar að selja minn hlut í Virðingu. Það kann jafnvel að vera að ég hafi áhuga á því að fjárfesta í fyrirtækinu og taka þannig með einum eða öðrum hætti þátt áfram, en það á bara eftir að koma í ljós,“ segir Kristín.

Nokkrir hnökrar voru upphaflega í samningaviðræðum fyrirtækjanna en Kristín segir það eðlilegan part af ferlinu. „Það er bara eins og gengur í svona sameiningarviðræðum að menn sjá ekki alltaf hlutina eins og eru ekkert alltaf sammála og ég held að það sé ekkert óeðlilegt við það. Þarna voru ákveðnir þættir sem menn náðu ekki saman um en svo liðu nokkrir mánuðir og menn náðu saman á endanum. En í svona sameiningarferli þá er þetta aldrei búið fyrr en það er búið.“

Gríðarleg tækifæri sem felast í samrunanum

Að undanförnu hefur mikið verið fjallað um yfirvofandi samruna Virðingar og Kviku, hver er staða mála um þessar mundir?

„Staðan er sú að allir hluthafar beggja fyrirtækja hafa samþykkt viðskiptin og nú er bara beðið eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins og Fjármálaeftirlitsins.“

Getur þú aðeins sagt mér frá þeim verkefnum sem Virðing er með á sinni könnu um þessar mundir?

„Virðing er verðbréfafyrirtæki sem sérhæfir sig fyrst og fremst í eignarstýringu, hjá einstaklingum, fyrirtækjum og fagfjárfestum. Við erum með rúmlega 100 milljarða króna í stýringu auk þess sem við erum með öfluga fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun.“

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að starfsemin muni breytast eftir þennan samruna?

„Kvika er að kaupa Virðingu og mun sameina starfsemi fyrirtækjanna. Þar með verður til gríðarlega öflugt fyrirtæki á sviði fjárfestingarbankastarfsemi. Kvika tvöfaldar þannig eignir sínar í stýringu með þessu og styrkir sína starfsemi verulega en það eru gríðarleg tækifæri sem felast í því að setja þessi tvö fyrirtæki saman.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.