Hagnaður Facebook á fjórða ársfjórðungi síðasta árs nam 1,56 milljörðum Bandaríkjadala, eða 202 milljörðum króna. Hagnaðurinn nam 701 milljón dala á sama fjórðungi árið 2014, eða 91 milljarði króna

Uppgjörið var birt eftir lokun markaða í kvöld. Hlutabréf samskiptavefsins hafa hækkað 7,1% eftir lokun markaða eftir að hafa lækkað um tæp 3% í dag.

Ástæðan aukins hagnaðar eru stórauknar auglýsingatekjur. Tekjur Facebook voru 5,8 milljarðar dala á fjórðungnum en voru 3,8 milljarðar á sama tíma árið 2014. Tekjuaukningin var 52% en kostnaður jókst hins vegar um 21%.

Hlutabréf Facebook hækkuðu um 30% árið 2015. Facebook réð þúsundir starfsmanna á síðasta ári og fjárfesti mikið, sérstaklega á fyrri helmingi ársins.