Hálf milljón einstaklinga býður nú í „röð“ eftir að geta keypt íbúð í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, en gríðarlegur húsnæðisskortur er til staðar í borginni sem ekki sér fyrir endann á. Til þess að halda í við fólksfjölgun í borginni þarf að byggja þar 76.500 ný heimili á ári til ársins 2020. Ekki er hins vegar útlit fyrir að það muni nást eins og sakir standa.

Sænsk stjórnvöld settu leiguþak í landinu fyrir fáeinum árum sem hafa gert fasteignir að óaðlaðandi fjárfestingarkosti í augum einstaklinga og fjárfesta. Neyðin er mest í Stokkhólmi þar sem meðalbiðtími eftir leiguíbúð stendur nú í níu árum. Á síðasta ári náðu aðeins 12 þúsund einstaklingar að landa húsaleigusamningum í borginni. Þetta ástand hefur leitt til þess að fólk er jafnvel tilbúið að greiða allt að 200 þúsund sænskar krónur, jafnvirði þriggja milljóna íslenskra króna, undir borðið til þess að komast fremst í röðina.

Jafnvel hefur ástandið orðið banvænt í sumum tilfellum. Þannig greinir Bloomberg fréttastofan frá því að lögregluyfirvöld í Stokkhólmi hafi rakið fimm morðtilfelli til ólögmætra viðskipta tengdum fasteignum, sem hægt sé að tengja við skipulagða glæpastarfsemi. Óttast lögregluyfirvöld að vaxandi fjöldi innflytjenda og hækkandi íbúðaverð muni leiða til þess að glæpum fari fjölgandi í borginni á næstu árum.

Nánar má lesa um málið á vef Bloomberg.