Gríska ríkið mun líklega ná með herkjum að standa við skuldbindingar sínar út júní, en mun verða uppiskroppa með fé í júlíbyrjun, að mati hagfræðinga hjá greiningardeild Bloomberg, sem meta eignastöðu grískra banka nógu góða til að geta tryggt flæði lánsfjár frá evrópska seðlabankanum í átta vikur í viðbót, að því gefnu að reglur um veðhlutföll breytast ekki.

Skatttekjur gríska ríkisins ættu að halda rekstri ríkissjóðs gangandi í sambærilegan tíma, að mati hagfræðinganna. Stærsta hindrunin í vegi gríska ríkisins er 3,5 milljarða evra afborgun af láni evrópska seðlabankans sem er á gjalddaga þann 20. júlí. Segir í frétt Bloomberg að erfitt sé að sjá hvernig gríska ríkið eigi að geta staðið við þá skuldbindingu að óbreyttu.

Þar segir jafnframt að þótt enginn utan gríska stjórnkerfisins viti nákvæmlega hversu mikið fjármagn er til staðar í sjóðum gríska ríkisins, en miðað við hversu erfiðlega hefur gengið að skrapa saman nægilegu fjármagni til að standa í skilum við lánadrottna undanfarnar vikur geti sjóðirnir ekki verið digrir.