Grímur Sæmundsen og Bláa Lónið fengu í dag viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og tók Grímur, forstjóri fyrirtækisins, við verðlaununum úr hendi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Hótel Sögu í dag.

Vöxtur Bláa Lónsins undanfarin ár hefur verið með miklum ólíkindum. Á milli áranna 2011 og 2015 fjölgaði gestum úr 460.000 í 918.000, velta jókst úr 19,5 milljónum evra í 54,3 milljónir evra, EBITDA hefur aukist úr 7,1 milljón evra í 21,3 milljónir evra og hagnaður úr 3,5 milljónum evra í 15,8 milljónir evra. Bláa Lónið er langvinsælasti áfangastaður erlendra ferðamanna á Íslandi og er á meðal þekktustu áfangastaða Íslands.

Grímur stofnaði Bláa Lónið árið 1992 og hefur stýrt félaginu frá þeim tíma. Hann segir í viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins, árið í ár ætla að verða enn betra en árið 2015 hvað varðar tekjur, afkomu og fjölda gesta.

Grímur segir aðgangsstýringarkerfi sem innleitt var af fullum þunga í fyrra vera eitt þeirra atriða sem hefur haft jákvæð áhrif á upplifun gesta og þar með á daglegan rekstur. „Kerfið virkar þannig að allir þurfa að bóka heimsóknartíma á vefsíðu okkar. Þér er úthlutað heimsóknartíma og þú veist því fyrirfram að á þeim tíma ertu öruggur um aðgang í baðlónið. Tími langra biðraða á baðstaðnum er liðinn og upplifun gesta er allt önnur og betri. Ef þú mætir fyrirvaralaust í lónið þá gæti verið að þú komist einfaldlega ekki að. Nú er svo komið að nær allir okkar gesta bóka sig í gegnum netið, annað hvort beint sjálfir eða óbeint í gegnum ferðaþjónustuaðila sem við erum í samvinnu við. Reyndar bóka um 60% gesta sig sjálfir og fer þetta hlutfall vaxandi.“

Ítarlegt viðtal er að finna við Grím í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag.