Það eru einkum tvö fyrirtæki sem standa fyrir listaverkauppboðum hér á landi og er Gallerí Fold þeirra stærst.

Jóhann Ágúst Hansen, listmunasali hjá Gallerí Fold, hefur fylgst grannt með listaverkamarkaðnum hér á landi og í félagi við nokkra samnemendur sína í Háskólanum á Bifröst tekið saman forvitnilegar tölur um markaðinn í óbirtri ritgerð, „Hver eru hagræn áhrif vaxtalausra listaverkalána á aðila myndlistarmarkaðarins?“

Þar kemur meðal annars fram að áætlaður heildarmarkaður myndlistargallería á árunum 2004 til 2006 er tæplega 700 milljónir króna. Markaðurinn var í nokkurri lægð framan af þessu tímabili, að undanskildu árinu 2005, þegar hann stækkaði um 123,59%, og á árinu 2007 stækkaði hann enn um 67%, samkvæmt íslensku listaverkavísitölunni, sem Jóhann Ágúst hefur reiknað út.

Því má ætla að heildarmarkaðurinn á árinu 2007 gæti verið nálægt einum millljarði króna. Jóhann Ágúst hefur tekið saman sölu á listaverkum hjá listaverkahúsum allt frá árinu 1985. Það ár er vísitalan sett í 100 en árið 1998 er hún 109,01 og hafði lækkað um 28,24% frá fyrra ári, en einmitt það ár voru gefnar út ákærur í stóra málverkafölsunarmálinu.

Aukið framboð – hærra verð

Ýmislegt hefur borið til tíðinda á íslenskum listaverkamarkaði undanfarna þrjá áratugi. Árið 1990 fer að berast inn á markaðinn gríðarlegur fjöldi listaverka. Framboð mynda til sölu margfaldast. Þetta mikla framboð helst tiltölulega stöðugt allt fram til ársins 1997 þegar ákærur eru gefnar út í fölsunarmálinu.

Sérfræðingar hafa bent á að strax árið 1990 hafi fölsuð verk verið farin að streyma inn á markaðinn. Jóhann Ágúst segir að það undarlega við þetta allt saman hafi verð að með auknu framboði hafi verð einnig hækkað.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .