Innlendur iðnaður hefur átt stóran þátt í vexti íslenska hagkerfisins og minnkandi atvinnuleysi frá hruni. Þá hefur iðnaður átt stóran þátt í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins undanfarin ár. Þetta segir Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í pistli á heimasíðu samtakanna. Pistillinn ber heitið „Mikil gróska í iðnaði“.

Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var heildarfjöldi launþega 10.700 á síðasta ári borið saman við 7.200 árið 2012, þegar uppsveiflan í þeirri grein hófst og fjárfesting í hagkerfinu fór að vaxa að nýju. Ingólfur bendir á að fjölgunin sé 3.500 eða tæplega 15% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á þeim tíma. Fjölgunin hefur haldið áfram á þessu ári. Að meðaltali hafa 11.500 starfað í greininni á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs sem er 17,6% aukning frá því á sama tíma í fyrr og 22% af heildarfjölgun launþega í öllum atvinnugreinum hagkerfisins.

Þá segir Ingólfur mikið hafa hvílt á byggingariðnaðinum í uppbyggingu innviða hagkerfisins undanfarin ár, sem hefur verið grundvöllur þess mikla vaxtar í þjónustuútflutningi sem einkennt hefur þessa uppsveiflu, sem hófst árið 2010. Má þar nefna uppbyggingu gistirýmis fyrir ferðamenn og íbúðarhúsnæðis auk sem dæmi.

Í tækni- og hugverkaiðnaði voru launþegar 13.000 á síðasta ári. Um er að ræða 7,2% af heildarfjölda launþega í landinu. Bendir Ingólfur á að störfum í þeirri grein hafi fjölgað um 1.600 síðan uppsveiflan hófst, eða sem nemur 6,1% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á tímabilinu. Segir Ingólfur að þessi grein hafi átt beinan og óbeinan þátt í vexti gjaldeyristekna sem drifið hefur núverandi hagvaxtarskeið. Má þar nefna þjónustu við ferðamenn sem dæmi.

Í framleiðsluiðnaði voru 17.000 launþegar starfandi á síðasta ári, ef frá er talinn fiskiðnaður. Launþegum þar hefur fjölgað um 2.000 frá 2010 sem er um 10% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á tímabilinu. Ingólfur segir framleiðsluiðnað hafa átt stóran þátt í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins bæði beint og óbeint. Umfang greinarinnar í útflutningi stóriðju á þessu sviði er mikið eða tæplega 18% heildargjaldeyristekna þjóðarbúsins af útflutningi vöru og þjónustu á síðasta ári en auk þess er annar útflutningur iðnaðarvara umtalsverður eða ríflega 9%. Við má síðan bæta óbeinu framlagi greinarinnar á þessum vettvangi en hluti gjaldeyristekna af ferðamönnum sem hingað koma fara í kaup á íslenskri iðnaðarframleiðslu t.d. á sviði matvæla.

Að lokum bendir segir Ingólfur: „Hátt raungengi krónunnar um þessar mundir vegur hins vegar að samkeppnisstöðu og markaðshlutdeild þessara greina gagnvart erlendum aðilum og dregur þannig úr vexti þeirra og umfangi.“