Skattrannsóknarstjóri rannsakar nú dótturfyrirtæki Öryggismiðstöðvarinnar, fyrirtækið 115 Security, vegna mögulegrar aðildar að skattsvikum undirverktaka fyrirtækisins.

Í rannsókninni sem staðið hefur yfir síðan árið 2014 að því er Fréttablaðið segir frá, er rannsakað hvort fyrirtækið hafi átt þátt í meintum skattsvikum undirverktakanna, sem eru níu talsins en þeir eru allir komnir í gjaldþrot.

Samningar fyrirtækisins, sem er eitt af fjórum dótturfyrirtækjum Öryggismiðstöðvarinnar, námu um 700 milljónum króna, en til rannsóknar er hvort þar hafi átt sér stað svokölluð gerviverktaka, þar sem starf launamanns er gert að verktakastarfi.

Hættu strax viðskiptum þegar málið kom upp

Þannig hafi rúmlega 400 milljónum króna verið stungið undan skatti, en Friðrik Sverrisson, framkvæmdastjóri 115 Security hafnar því að fyrirtækið hafi átt nokkra aðild að málinu, enda hafi það ávalt staðið í skilum.

„Þetta er mjög skrítið mál og fordæmalaust með öllu,“ segir Friðrik. „Þeirra skattskil eru okkar félagi algjörlega óviðkomandi, en þegar við fengum ábendingu um að skattskil þessara undirverktaka væri í ólestri þá hættum við strax viðskiptum við þá.“