Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, hefur óskað eftir því við stjórn að láta af störfum hjá félaginu. Samkomulag er um að hann gegni starfi framkvæmdastjóra til loka mars næstkomandi en þá mun Guðbrandur hafa verið þrjú ár í starfi hjá Heimavöllum.

„Ég var fenginn til starfa hjá félaginu fyrir þremur árum þegar stefnan var sett á frekari vöxt og skráningu þess á markað. Hjá félaginu starfar samhentur hópur starfsfólks sem hefur skilað frábæru starfi. Félagið býr í dag yfir verðmætu eignasafni og hefur styrkt rekstur sinn verulega að undanförnu. Framundan eru annars konar verkefni en áður. Þau fela í sér enn frekari endurskipulagningu á eignasafni félagsins og endurfjármögnun á lánum. Ég tel að þetta sé góður tímapunktur til þess að stíga til hliðar, bæði fyrir félagið og mig sjálfan,“ er haft eftir Guðbrandi i tilkynningu.

Í tilkynningu þakkar stjórn Heimavalla Guðbrandi fyrir mjög gott uppbyggingarstarf og óskar honum alls velfarnaðar. Stjórn hefur hafið undirbúning að ráðningu nýs framkvæmdastjóra.