Guðjón Reynisson hyggst hætta sem forstjóri bresku leikfangaverslunarkeðjunnar Hamleys að því er Morgunblaðið greinir frá. Hyggst hann þó ekki hætta afskiptum af fyrirtækinu heldur tekur hann sæti í stjórn sem varaformaður stjórnar.

Sá sem tekur við af Guðjóni heitir Ralph Cunningham, en hann hefur starfað hjá verslunarkeðjunni frá árinu 2011, en undir það síðasta hefur hann verið framkvæmdastjóri rekstrar. Hann tekur við 1. október næstkomandi.

Fyrirtækið hefur vaxið mikið á þeim níu árum sem það hefur verið undir forystu Guðjóns, og hefur það opnað verslanir út um allan heim. Nýjasta verslun fyrirtækisins verður til að mynda opnuð í Mumbai síðar í vikunni, og verða þær þá orðnar 110 í alls 25 löndum.