*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 6. ágúst 2012 18:30

Guðjón hissa á að Nokia skyldi ekki nýta sér nafnið OZ

Segir OZ nafnið henta rekstri nýja fyrirtækisins vel.

Guðni Rúnar Gíslason
Magnús Ragnarsson, Guðjón Már Guðjónsson og Jón Stephenson von Tetzchner.
Haraldur Guðjónsson

Guðjón Már Guðjónsson, sem jafnan er kenndur við Oz, er ánægður með að hafa tryggt sér nafnið OZ á ný. „Ég var hissa á að Nokia skyldi ekki nýta sér nafnið OZ,“ segir Guðjón. Nokia keypti sem kunnugt er OZ af Skúla Mogensen og samstarfsfélögum hans þegar fyrirtækið var selt í október 2008.

Guðjón sagði skilið við félagið árið 2003 eftir að Landsbankinn tók yfir rekstur þess. Stjórnendur fyrirtækisins,þar á meðal Skúli Mogensen, keyptu svo reksturinn af Landsbankanum og fluttu félagið til Kanada. Það var síðan selt til Nokia eins og áður var nefnt. Eftir mikinn niðurskurð hjá Nokia var sá hluti sem áður hafði verið OZ sameinaður breska félaginu Synchronica um mitt síðasta ár. Guðjón og Medizza settu sig svo í samband við stjórnendur Synchronica og buðust til að kaupa nafnið og lénið fyrir oz.com. Guðjón segist líta á kaupin eins og fasteignakaup í hinum stafræna heimi.

Þeir Guðjón og Magnús Ragnarsson, yfirmaður viðskiptaþróunar hjá OZ, ræddu meðal annars áhugann á að endurvekja nafnið OZ og aðkomu Jóns Stephensonar von Tetzchner að fyrirtækinu sem þróar tækni í stafrænni sjónvarpsdreifingu  í viðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn.

Er þetta dýr fasteign?
„Nei, en það er auðvitað svolítið afstætt. Ef áætlanir okkar ganga ekki eftir þá er hún svo sem dýr,“ segir Guðjón um kaupin. „Þarna er auðvitað verið að kaupa heildstæða lausn,“ segir Magnús og bendir á að með þessu þurfi ekki að vinna með auglýsingastofu til að hanna „lógó“ eða finna nýtt nafn. „Fyrir alþjóðlega markaðssetningu er þetta alveg frábært.“

Af hverju vilja menn taka upp OZ nafnið á ný?

„Nafnið hentar rekstri okkar vel og það er mjög mikilvægt að hugsa um heildarmyndina. Þetta er hugsað í víðara samhengi en umhverfinu hér á landi. Það mikilvægasta er að allir reyni að gera sitt besta og standi saman að uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja,“ segir Guðjón sem segist hafa fylgst vel með þróun nafnsins OZ allt frá því að hann stofnaði fyrirtækið fyrst. Hann segir jákvæða strauma í kringum nafnið. „Það er tilvísunin í ævintýrið og svo líka að þetta er þjált og skemmtilegt nafn, þessir tveir stafir. Reynsla mín er sú að þegar maður var að semja við fyrirtæki í Asíu þá var nafnið jafn spennandi þar og á  Bandaríkjamarkaði eða í Skandinavíu.