Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í dag fund með Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands í Lundúnum þar sem þeir ræddu útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og leiðir til að efla samskipti Íslands og Bretlands i kjölfar útgöngunnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Einnig kemur fram að utanríkisráðherrarnir tveir ræddu um viðskipti á milli þjóðanna tveggja. Bretland er meðal mikilvægustu markaða fyrir íslenskar útflutningsvörur. Voru ráðherrarnir sammála um að viðskipti landanna í kjölfar útgöngu Breta verði byggð á grunni sem veitti jafngóðan eða betri markaðsaðgang og nú ríkir á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) að því er kemur fram í tilkynningunni.

„Þetta var afar jákvæður og gagnlegur fundur og mikill samhljómur ríkti,“ segir utanríkisráðherra. „Við vorum sammála um að styrkja enn frekar þau ríku tengsl sem við höfum átt í gegnum tíðina við Breta, sem eru meðal okkar nánustu bandamanna og vinaþjóða. Bretar eru að ganga í gegnum afar spennandi tíma umbreytinga í kjölfar Brexit og við vorum sammála um að það væru mikil tækifæri fólgin í þessari stöðu,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn.

Ráðherrarnir voru enn fremur sammála um að útvíkka reglubundinn samráðsvettvang ríkjanna um viðskiptamál til að ræða frekar sértæk sameiginleg hagsmunamál. Málefni sjávarútvegsins hafa verið á dagskrá samráðsfunda embættismanna ríkjanna og mun áhersla verða lögð á að efla enn frekar samstarf á sviði fiskveiðistjórnunar. Þá verður samstarf ríkjanna á vettvangi orku- og umhverfismála eflt.