„Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt til þess að sjá að það skiptir máli hverjir stjórna. Við erum hérna í okkar fallegu höfuðborg – hún er í rusli,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á opnum kosningafundi sjálfstæðismanna sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Þar vísaði Guðlaugur Þór meðal annars til slæms stjórnarfars í borgarmálum. „Borgaryfirvöld þora ekki lengur að taka þátt í samanburðarkönnunum á þjónustu íbúanna í tengslum við önnur bæjarfélög – það þarf ekki að segja meira. Í stað þess að þjónusta borgaranna þá er verið að fjölga silkihúfum í ráðhúsinu. Þetta er forgangsröðun vinstri manna,“ sagði Guðlaugur.

Hann ræddi einnig nýafstaðin stjórnarslit, sem eru aðdragandi kosninganna sem fara nú brátt fram. „Það blasir við öllum skyni gæddum mönnum að það var tilhæfulaust með öllu að slíta ríkisstjórnarssamstarfinu á þeim forsendum sem gefnar voru. Veruleikinn blasir nú við og skömm þeirra sem að þessu stóðu. Líklega er þetta Íslandsmet í ábyrgðarleysi og er þó ýmsu til jafnað,“ sagði Guðlaugur.

Eina fjöldahreyfingin

Mikill fjöldi mætti á fundinn og kvaðst utanríkisráðherra ánægður með mætinguna: „Við erum eina fjöldahreyfingin í íslenskum stjórnmálum,“ sagði Guðlaugur Þór við dynjandi lófaklapp. Hann minntist þess að fyrir ári síðan hafi skoðanakannanir ekki verið góðar, en að hans mati hafi sjálfstæðismenn snúið við taflinu á undraverðan hátt.

„Það þarf að hafa mest fyrir þeim hlutum sem eru mikilvægastir. Verkefni okkar næstu þrjátíu og fimm daga er svo sannarlega mikilvægt fyrir land og þjóð – því það skiptir máli hverjir stjórna,“ sagði Guðlaugur Þór. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum á Facebook síðu Sjálfstæðisflokksins.