Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra telur að Evrópusambandið eigi ekki að refsa Bretlandi þegar samið verður um útgöngu ríkisins úr ESB og að sambandið eigi að veita Bretum fríverslunarsamning sem líkist núverandi ástandi. Þetta kemur fram í viðtali Telegraph við Guðlaug Þór.

Hann telur jafnframt að það væri í hag beggja aðila að halda í fríverslun innan álfunnar og að ef Evrópusambandið myndi reyna að refsa Bretlandi, myndi það hafa slæm áhrif á löndin 27 sem verða eftir í ESB.

„Það verða engir sigurvegarar ef við setjum upp tollamúra. Ég held að það sé augljóst að það eigi að halda uppi merki fríverslunar í Evrópu, líkt og staðan var fyrir,“ segir Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðherrann hefur á undanförnum dögum heimsótt Berlín, Brussel og nú Lundúna til að hitta Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands.