Guðmundur Þóroddsson var fyrsti forstjóri Orkuveitunnar, sem var stofnuð árið 1999 með sameiningu Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur, en fór síðar í leyfi til þess að taka við starfi forstjóra Reykjavík Energy Invest. Þegar Guðmundur hætti sem forstjóri fyrirtækjanna voru fluttar af því fréttir að hann hafi tekið trúnaðarupplýsingar út úr skjalasafni Orkuveitunnar. Sagt var að Guðmundur hefði neitað að skila gögnunum.

„Ég tók náttúrulega ekkert úr skjalasafni Orkuveitunnar. Það var nú uppspunninn rógburður,“ segir Guðmundur þegar hann er spurður út í málið.

„Hins vegar hafði ég náttúrulega setið alla stjórnarfundi Orkuveitunnar síðan ég varð þar framkvæmdastjóri og átti mín gögn öll. Ég taldi rétt að taka þau gögn með mér af því að maður veit aldrei, eins og sagan hefur svo sýnt, hvenær menn fara í einhverjar undarlegar vegferðir og reyna að sverta mann. Þá taldi ég mig þurfa að geta flett upp hvað hafði verið samþykkt á stjórnarfundi,“ segir hann.

Guðmundur segir að um stjórnarfundagögn hafi verið að ræða. „Svo varð þetta svo mikið mál hjá Orkuveitunni að ég samþykkti að ég skyldi láta þau hafa gögnin aftur, gegn því að ég hefði alltaf aðgang að þeim þegar ég þyrfti á því að halda. Það var nú ekki merkilegra en það. En þetta var mjög undarlegur tími hjá reykvískum stjórnvöldum. Menn fóru í alls konar leiki.“

Guðmundur er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .