Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, er ekki á kjörskrá og þar með ekki kjörgengur, að því er segir í frétt Ríkisútvarpsins . Guðmundur hefur verið búsettur lengi erlendis og sótti um flutning á lögheimili í dag.

Frestur til að færa lögheimili sitt til landsins og komast þannig á kjörskrá í tæka tíð fyrir kjördag 27. apríl rann út 23. mars. Sem íslenskur ríkisborgari búsettur erlendis hefði Guðmundur þurft að sækja um að komast á kjörskrá fyrir 1. desember.

Guðmundur segist í samtali við RÚV verða að finna nýjan mann í fyrsta sæti á framboðslista Hægri grænna í Suðvesturkjördæmi. Hann hyggst þó áfram gegna formennsku í flokknum. Guðmundur segir að lögmaður sinn sé núna að skoða hvort hann geti kært sig inn á kjörskrá.