Guðmundur H. Jónsson mun láta af störfum sem forstjóri Byko um næstu mánaðarmót. Hann hefur gegnt starfi forstjóra félagsins í þrjú ár. Í tilkynningu frá Guðmundi til starfsfólks félagsins segir að þó svo að hart hafi veri í ári hjá félaginu hafi tekist með góðri samvinnu að „koma BYKO sterku út úr erfiðasta árferði frá stofnun félagsins.“ Guðmundur mun þó ekki hætta afskiptum af félaginu en hann verður áfram stjórnarformaður þess.

Sigurður Pálsson, 39 ára gamall viðskiptafræðingur frá Tækniháskóla Íslands, mun taka við starfi Guðmundar. Sigurður hefur starfað fyrir Byko og tengd félög allt frá árinu 1998. Frá árinu 2012 var Sigurður framkvæmdastjóri vörustjórnunarsviðs hjá félaginu.