Dótturfélag Brims hf, félags Guðmundar Kristjánssonar, hefur fest kaup á skipinu Brettingi. Um er að ræða frystitogara sem var smíðaður í Japan árið 1973. Skipið er kvótalaust og er þegar farið á rækju og grálúðuveiðar á Íslandsmiðum. Stefnt er á að skipið komi einnig til með að stunda makrílveiðar síðar í sumar.

Þetta staðfesti Guðmundur í samtali við Viðskiptablaðið en skipið verður gert út frá Reykjavík.

Brettingur var gerður út frá Vopnafirði í áratugi áður en hann var seldur utan fyrir nokkrum árum. Síðar var hann keyptur aftur til landsins og er nú kominn í eigu félags Guðmundar.