*

laugardagur, 16. febrúar 2019
Innlent 11. maí 2016 07:55

Guðni með yfirburði í könnun

69 prósent þeirra sem taka afstöðu myndu kjósa Guðna Th. Jóhannesson í embætti forseta Íslands ef kosið væri nú.

Ritstjórn
Aðsend mynd

69 prósent þeirra sem taka afstöðu myndu kjósa Guðna Th. Jóhannesson í embætti forseta Íslands ef kosið væri nú. Þetta er niðurstaða könnunar sem framkvæmd var af Fréttablaðinu, Stöð 2 og Vísi á mánudagskvöld. Davíð Oddsson, mælist með með næst mest fylgi eða 13,7 prósent þeirra sem afstöðu taka en Andri Snær Magnason er á hæla Davíðs með 10,7 prósent fylgi. Einungis eitt prósent þeirra sem afstöðu taka segjast myndu kjósa Höllu Tómasdóttur.

Stuðningur við efstu þrjá frambjóðendur er ólíkur milli kynja og aldurshópa. Guðni nýtur ívið meiri stuðnings meðal kvenna en karla eða 72,2 prósent á móti 65,7 prósentum. Það á einnig við um Andra Snæ sem nýtur stuðnings 13,1 prósent kvenna en 8,3 prósent karla. Davíð Oddsson nýtur hins vegar talsvert meiri stuðnings karla en kvenna, eða 18,8 prósent á móti 8,6 prósentum.

Aldurskipting þátttakenda sýnir að fylgi við Guðna er nokkuð jafnt skipt milli þeirra sem eru á aldrinum 18-49 ára og þeirra sem eru 50 ára og eldri. Aftur á móti er fylgi Andra Snæs talsvert meira á meðal þeirra sem eru 18-49 ára en þeirra sem eru 50 ára og eldri, eða 13,8 prósent á móti 6,6 prósentum. Davíð Oddsson nýtur hins vegar meira fylgis meðal þeirra sem eru 50 ára og eldri en þeirra sem eru á aldrinum 18-49 ára, eða 17,2 prósentum á móti 11 prósentum.