Á aðalfundi Veitna ohf., dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, var félaginu skipuð ný stjórn. Nýr stjórnarformaður er Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri Orkuveitu Reykjavíkur, og konur eru meirihluti stjórnarmanna fyrirtækisins í fyrsta sinn.

Guðrún Erla lauk B.Sc.prófi í ferðamála- og viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 2004 með viðkomu í San Diego State University. Hún stundaði framhaldsnám í Syddansk Universitet í Odense og lauk M.Sc.prófi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands 2006. Guðrún Erla starfaði sem skrifstofustjóri hjá Orkuveitu Húsavíkur til 2008 og síðan sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins þar til hún gekk til liðs við OR árið 2015. Samhliða starfi sínu hjá OR leggur Guðrún Erla stund á doktorsnám og er rannsóknarsvið hennar stjórnhættir og stefnutengd hlutverk stjórna.

Guðrún Erla var fyrsta konan til að eiga sæti í stjórn Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Þar hefur hún átt sæti frá árinu 2012 og verið varaformaður samtakanna frá 2016.

Orkuveita Reykjavíkur hefur þann hátt á við kjör í stjórnir dótturfélaga að meirihluti stjórnarfólks er úr hópi starfsmanna samstæðunnar en leitað er viðeigandi sérþekkingar utan fyrirtækisins í tvö af fimm stjórnarsætum.

Auk Guðrúnar Erlu skipa hina nýju stjórn Veitna; Ásta Sigríður Fjeldsted framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Bjarni Freyr Bjarnason sérfræðingur á fjármálasviði OR, Guðni Axelsson forðafræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum og Sólrún Kristjánsdóttir starfsmannastjóri OR, sem er varaformaður stjórnarinnar.

Framkvæmdastjóri Veitna er Inga Dóra Hrólfsdóttir verkfræðingur. Hún er eina konan sem stýrir stóru orku- eða veitufyrirtæki í landinu.