*

sunnudagur, 24. febrúar 2019
Innlent 5. apríl 2014 21:26

Guðrún í Kjörís: Íslenskur iðnaður er burðarásinn

Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri og einn eigenda Kjöríss, var á dögunum kjörinn formaður Samtaka iðnaðarins.

Lára Björg Björnsdóttir
Haraldur Guðjónsson

„Ég tel helstu áskoranirnar hjá Samtökum iðnaðarins vera að vinna að efnahagslegum stöðugleika,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss og nýkjörinn formaður Samtaka iðnaðarins, um næstu skref hjá samtökunum. „Iðnaðurinn þarf aðgengi að fjármagni og lægri vöxtum og við þurfum að gera átak í því að laða ungt fólk í nám í iðn- og tæknigreinum. Heilbrigt skattaumhverfi sem og einfalt og skilvirkt regluverk skiptir höfuðmáli svo að íslensk fyrirtæki geti verið samkeppnisfær á alþjóðlegum mörkuðum,“ segir Guðrún.

Guðrún telur íslenskan iðnað standa vel að vígi. „Við sáum það á síðasta Iðnþingi, er við minnt umst 20 ára afmælis Samtaka iðnaðarins, hversu öflugur íslenskur iðnaður er. Íslenskur iðnaður er burðarás í íslensku efnahagslífi. Ég er afskaplega stolt af íslenskum iðnfyrirtækjum og tel framtíðina mjög bjarta ef rétt er á málum haldið.“

Hún segir mjög spennandi að fylgjast með uppbyggingu gagnavera hér á landi og telur mikil tækifæri felast í þeirri uppbyggingu fyrir Ísland. „Hér er ódýr og græn orka og nettengingar góðar. Það kom einnig fram í máli Guðbjargar Eddu hjá Actavis á Iðnþingi að orkuöryggi er mjög gott hér á landi sem er forsenda fyrir rekstri gagnavera. Fyrirtækið Broad Group vann skýrslu fyrir Landsvirkjun þar sem kom fram að á næstu árum myndi gríðarleg uppbygging eiga sér stað í byggingu gagnavera í heiminum enda er áætlað að internetumferð komi til með að vaxa um 40-60% á ári. Í skýrslunni var talað um að á næstu tíu árum yrðu byggð gagnaver í heiminum fyrir fleiri þúsundir milljarða. Það væri gott að fá eitthvað af þeirri uppbyggingu hingað til lands,“ segir Guðrún.

Rætt er við Guðrúnu í blaðinu Áhrifakonur sem fylgdi Viðskiptablaðinu i dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð