Guðrún Johnsen er hagfræðingur frá Háskóla Íslands, MA í hagnýtri hagfræði, MA í tölfræði. Hún hefur síðastliðin þrjú ár verið varaformaður stjórnar  Arion banka. Hún hefur áður setið í stjórn Banksýslunnar, rekstrarfélags MP og ráðgjafarfyrirtækis.

Hvað finnst þér um lagasetninguna á næsta ári?

„Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið líða fyrir það að það eru fáar konur í stjórnum. Niðurstöðurnar eru því nokkuð misvísandi um hver raunveruleg áhrif kvenna eru innan stjórna. Margt bendir þó til að þau séu jákvæð. Í það minnsta vitum við að fyrirtæki sem búa við góða stjórnarhætti skila meiri arðsemi en þau sem hafa slaka stjórnarhætti. Bandarískir rannsakendur komust að því að fjárfestar fengu 8,5% hærri ávöxtun að meðaltali á ári yfir 10 ára tímabil ef eignasafn þeirra var sett saman af fyrirtækjum sem bjuggu við góða stjórnarhætti miðað við slaka. Í öllu tilliti, hvort sem það er karl eða kona, verða stjórnarmenn að hugsa um hag fyrirtækisins til langs tíma og skamms. Þeir eiga að gæta þess að farið sé vel með fé hluthafanna og stuðla að heilbrigðum stjórnarháttum. Það á við um bæði karla og konur. “

Hvernig finnst þér andrúmsloftið vera gagnvart því að fá fleiri konur í stjórn?

„Mér finnst vera mjög jákvætt andrúmsloft í kringum stjórnarsetu kvenna og mér finnst vera ákveðin eftirspurn eftir hæfileikaríkum konum á þessum vettvangi, enda væri annað skrýtið þar sem konur eru jafn virkar á vinnumarkaði og karlmenn. Undanfarið hafa þær náð sér í meiri menntun en karlar. Ég held að góð blanda kynjanna meðal stjórnenda hafi jákvæð áhrif á alla ákvarðanatöku.“

Rætt er við Guðrúnu ásamt fleiri konum í stjórnum fyrirtækja um málið í Áramótum, áramótatímariti Viðskiptablaðsins sem kom út á milli jóla og nýárs.