Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, tók í dag við formennsku stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða í stað Þorbjörns Guðmundssonar sem óskaði eftir því að hætta í stjórn samtakanna á ársfundi þeirra.

Þorbjörn hefur lengi starfað fyrir lífeyrissjóðina sem hafa notið starfskrafta hans og elju og eru honum færðar innilegar þakkir á vef Landsamtakanna.

Guðrún er fyrsta konan í formannsstóli Landssamtaka lífeyrissjóða frá því þau voru stofnuð 18. desember 1998. Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða frá 2011 er Þórey S. Þórðardóttir. Í fyrsta sinn gegna því konur báðum æðstu forystustörfum lífeyrissjóðakerfis landsmanna.