Gulleggið, frumkvöðlakeppni, fer fram á tímabilinu september til október ár hvert og er haldin á vegum Icelandic Startups í samstarfi við stærstu háskóla landsins með stuðningi lykilaðila í íslensku atvinnulífi.

Í ár bárust í keppnina 82 viðskiptahugmyndir ásamt 19 manns sem skráðu sig án hugmyndar og áttu kost á að komast inn í teymi. Rýnihópur skipaður til jafns konum og körlum með fjölbreyttan bakgrunn las hugmyndirnar yfir og tíu stigahæstu hugmyndirnar hafa nú verið valdar.

Atmonia: Umhverfisvæn framleiðsla á ammóníaki.

Freebee: Hugbúnaður sem veitir neytendum aðgang að ókeypis vöru og þjónustu og fyrirtækjum aðgang að rýnihópum.

Genki Instruments: Wave, fyrsta vara fyrirtækisins, er hringur hannaður fyrir tónlistarfólk. Wave nemur hreyfingar handarinnar, snúning og slátt og þannig getur tónlistarfólk stjórnað hljóði og sett af stað skipanir í rauntíma með einföldum hætti.

Reykjavík Roller Coaster: Upplifun í sýndarverkuleika þar sem notandinn þeytist um í rússíbanahermi í gegnum undur íslenskrar náttúru.

Spontant: Hugbúnaður sem hjálpar hvatvísum ferðamönnum að finna ævintýri og afþreyingu á síðustu stundu og ferðaþjónustufyrirtækjum að hámarka nýtingu.

Munndropinn: Dropalaga munnstykki sem þrýstir tungunni niður og kemur þar með í veg fyrir að hægt sé að gnísta tönnum.

Myrkur: Framleiðsla á leikjaseríu sem notar allra nýjustu tækni til að lágmarka kostnað og auka gæði.

Taktikal: Hugbúnaðarlausn  sem gerir einstaklingum og lögaðilum mögulegt að stofna til viðskipta á örfáum mínútum og í kjölfarið heimila ýmsar sjálfvirkar þjónustur er krefjast viðskiptasambands.

Tasty Rook: Stafrænir samkvæmisleikir fyrir snjallsíma sem notendur spila augliti til auglitis með fjölskyldu og vinum hvar og hvenær sem er. Fyrirtækið hefur þegar gefið út leikinn Triple Agent.

Ylhýra: Hugbúnaður sem kennir íslensku á samtalsformi.

Laugardaginn 28. október munu þessi tíu teymi kynna hugmyndir sínar fyrir dómnefnd sem skipuð er fjárfestum og reynsluríkum stjórnendum sem velja sigurvegara keppninnar. Fyrsta sætið hlýtur 1 milljón króna að verðlaunum, annað sætið 500 þúsund krónur og þriðja sætið 300 þúsund krónur. Þar að auki eru margskonar aukaverðlaun sem samstarfsaðilar keppninnar veita.

Lokahóf Gulleggsins fer fram síðar þann dag í Háskóla Íslands þar sem tilkynnt verður um sigurvegarana og skálað verður fyrir þátttakendum.

Frá því í september hafa þátttakendur sótt vinnusmiðjur þar sem þeir hafa fengið leiðsögn og fræðslu til að þróa hugmyndir sínar áfram þannig að eftir standi raunhæfar og vandaðar áætlanir.  Við framkvæmd Gulleggsins nýtur Icelandic Startups liðsinnis tólf sjálfboðaliða úr röðum nemenda samstarfsháskólanna; HR, HÍ, Bifröst og LHÍ. Bakhjarlar Gulleggsins eru Landsbankinn, KPMG, Marel, NOVA, ADVEL Lögmenn og Alcoa Fjarðarál.