Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur mátt sæta gagnrýni vegna úthlutun strandveiðikvóta á yfirstandandi fiskveiðiári. Með reglugerð sem hann setti í vor var kvóti á svæði A og B aukinn, en kvóti á svæði D minnkaður. Svæði A og B eru á norðvesturhluta landsins, en svæði D nær frá Hornafirði með suðurstöndinni allt til Borgarbyggðar.

Félagsmenn í Smábátafélaginu Hrollaugi á Hornafirði hafa sagt að þeir séu keyrðir í þrot með þessari ákvörðun og hafa farið fram á afsögn Gunnars Braga vegna málsins.

Tilraun til að jafna ójafnræði

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Gunnar Bragi að tvær ástæður séu fyrir því að kvótaúthlutun var breytt með þessum hætti. Í fyrsta lagi hafi verið mikið ójafnræði milli svæða þegar kemur að meðalafla á bát og um sé að ræða tilraun til að jafna það.

„Síðan, samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins, höfðu aflaheimildirnar á D-svæði ekki verið nýttar til fulls tvö ár í röð. Annars vegar voru það 100 tonn tæplega annað árið og 200 tonn hitt árið. Þess vegna var ákveðið að færa þetta yfir á svæði sem augljóst var að myndu nýta allan aflann og var í rauninni mikil eftirspurn eftir á þeim tíma,“ segir sjávarútvegsráðherra.

Fáránlegt

Úthlutunin hefur verið sett í samhengi við það að strandveiðisvæði A sé innan kjördæmis Gunnars Braga, Norðvesturkjördæmi, og einnig svæði B að mestu leyti. Gunnar Bragi segist ekki skilja þá umræðu þar sem svæði D sé einnig að hluta innan hans kjördæmis.

„Akranes er stærsti þéttbýlisstaður Norðvesturkjördæmis, annar stærsti á D svæði,“ segir Gunnar Bragi og bætir við að svæðaskipting í strandveiðikerfinu fari ekki eftir kjördæmum heldur öðrum hlutum. „Það er algjörlega fáránlegt að ég hafi farið í eitthvað kjördæmapot, í að færa heimildir frá stærsta þéttbýlisstaðnum í kjördæminu eitthvað annað.“