„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, ræddi í dag símleiðis við Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur. Í samtalinu áréttaði forsætisráðherra samúðarkveðjur til dönsku þjóðarinnar og samstöðu með Dönum á erfiðum tímum - hugur Íslendinga væri með sinni nánu frænd- og vinaþjóð á erfiðum stundum sem þessum." Þetta segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Tilefnið er hryðjuverkaárás Omar Abdel Hamid El-Hussein, sem skaut tvo til ólífis og særði fimm lögreglumenn í Kaupmannahöfn á laugardag.

„Sagði forsætisráðherra árásirnar vera atlögu að lýðræði og mannréttindum sem væru einkennandi fyrir danskt samfélag . Það hefði jafnframt verið aðdáunarvert hvernig Danir hefðu brugðist við ódæðunum af stillingu og einurð. Forsætisráðherra hafði áður sent forsætisráðherra Danmerkur formlegt samúðarskeyti fyrir hönd ríkissjórnarinnar og íslensku þjóðarinnar," segir jafnframt.

Í skeytinu kemur fram að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, verði viðstaddur minningarathöfn sem haldin verður í Kaupmannahöfn í kvöld.