Gunnar Smári Egilsson, nýr eigandi Fréttatímans segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann ætli að efla og bæta Fréttatímann.

„Hugmyndin er að ná með allra besta móti að endurspegla samfélagið sem við búum í og segja sögur af því sem er að gerast. Ég er búinn að vera aðeins frá íslenskum fjölmiðlaheimi og þegar ég kem til baka og skoða blöðin þá finnst mér eins og að efnisritstjórn hafi látið á sjá í íslenskum fjölmiðlum. Það er enginn munur á fjölmiðlunum, þeir eru allir að fjalla um sömu málin. Það er eins og engin ritstjórn setjist niður og velti því fyrir sér hvaða mál eru mikilvægust í dag, hvað mál það eru sem sæki að okkur. Það virðist eins og fjölmiðlar séu allir bara að svara sama áreitinu og rjúki allir á eftir sömu lestinni.

Ef það verður sýnileg breyting á blaðinu þá verður hún sú að við ætlum okkur að skoða samfélagið, reyna að greina það og reyna að meta í gegnum hvaða breytingar samfélagið er að fara.“

Aðspurður hvort að hann taki eftir þessum skorti á ritstjórn á ákveðnum miðlum frekar en öðrum segir Gunnar Smári að hann taki sérstaklega eftir því á stóru blöðunum, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. „Það er í raun stórundarlegt hvað fréttaáherslurnar eru líkar á þessum blöðum. Þrátt fyrir að þetta sé lítið land þá er ekki þar með sagt að tvær ólíkar ritstjórnir gefi út nánast alveg eins blað. Mér finnst það eiginlega bara stórundarlegt,“ segir Gunnar Smári. „Hluti af blaðamennsku og ritstjórn er að skoða samfélagið og draga fram það sem er mikilvægt, það er ekki bara mikilvægt það sem kemur fram í fréttatilkynningum, eða á blaðamannafundum, heldur ber ritstjórninni að meta samfélagið sjálfstætt og varpa mynd af því samfélagi á síðurnar.“