Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands segir forsendubrest kjarasamninga vera vegna ákvarðana í kjaramálum.

„Þar erum við með kjararáð og kjarasamninga, sérstaklega sveitarfélaga, undir," segir Gylfi í samtali við Viðskiptablaðið í kjölfar frétta um að ríkisstjórnin hyggist uppfylla loforð um framlög til byggingar almennra leiguíbúða.

„Það hefur verið samið við ákveðna hópa, eins og kennara, á mun hærri nótum en almennt var gert í landinu."

Sameiginleg niðurstaða ASÍ og SA að forsendur sé brostnar

Gylfi segir þó að þar með sagt sé ekki að forsendunefnd aðila vinnumarkaðarins verði að segja upp samningunum.

„Launasetning kennara er með þeim hætti að kannski er hægt að una við það, þó í því felist forsendubrestur," segir Gylfi.

„En síðan kemur kjararáð, með sína ákvörðun í kjaramálum, og hún er alveg út úr kortinu, bæði í hlutfalli en ekkert síður í launasetningum. Það er augljóst að það er sameiginleg niðurstaða okkar og SA að þessi forsenda teljist því brostin".

Meta hvort vilji vera fremstir í samningaröð

Gylfi segir að það sé nú í höndum samninganefndar Alþýðusambandsins hvernig brugðist verði við því að tvisvar á síðasta ári hafi kjararáð tekið ákvarðanir sem séu umfram samninga.

„Sú ákvörðun verður tekin á þriðjudaginn. Það er forsendubrestur svo við getum sagt upp samningunum," segir Gylfi sem harmar að Alþingi hafi hafnað að taka á dagskrá tillögu Pírata um að grípa inn í ákvörðun Kjararáðs.

„Þá kemur inn í það mat á því hvort við viljum vera fremstir í röðinni í að semja, á undan til dæmis háskólamönnum hjá ríkinu. Er kannski ekki bara eðlilegt að við framlengjum þessum samningi því við erum með aðra endurskoðun að ári og leyfum ríkinu að glíma við sína hópa fyrst.

Ríkið klári launastefnu Kjararáðs við sína hópa

Það er tillaga mín, að þó það sé rökrétt í sjálfu sér að segja upp samningnum vegna þessarar deilu, að við ráðum því sjálfir hvenær við komum að þessari deilu.

Við ættum að leyfum ríkinu að klára þessa nýju launastefnu sem kjararáð hefur ákveðið og Alþingi vill greinilega verja. Það er ekkert hægt að meta það öðruvísi."

Salek samkomulagið lifir ekki af

Gylfi segir marga vera á þeirri skoðun að það sem ætti að stýra launaþróun í landinu sé atvinnulífið og geta þess til að greiða laun

„Það hefur bara ekki tekist, bæði árið 2014 og 2015," segir Gylfi sem segir það nú liggja fyrir SALEK samkomulagið sé fallið. „Það lifir þetta ekkert af."

Ákvörðun kjararáðs grundvöllur kröfugerðar

Vísar Gylfi þar í að aðrir hópar líkt og Bandalag háskólamanna muni vísa í þessar ákvarðanir í sínum kröfum.

„Það liggur fyrir að þeirra hálfu til dæmis, það kom fram í fréttum í gær að þeir telja þetta vera grundvöll að þeirra kröfugerð," segir Gylfi sem er gagnrýninn á ákvörðun Alþingis.

„Alþingi skipaði kjararáð, sem sagt er fyrir um í lögum að eigi ekki að valda usla á vinnumarkaði, en mér finnst menn ekki komast nær því að valda usla á vinnumarkaði ef tekist hefur að slökkva á allri umræðu um nýtt samningamódel."